144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:42]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ástæðan fyrir því að það er að mínu mati svo sanngjörn ósk að málið fari núna strax aftur til nefndar er sú að 2. umr. er meginefnisumræða máls. Þá þurfa að liggja fyrir í aðalatriðum þær breytingar sem menn reikna með að þurfi að gera á máli til að það sé tækt til afgreiðslu.

Nú liggur fyrir að það verður enginn friður um þetta mál nema á því verði gerðar umtalsverðar breytingar. Þess vegna á það að ganga til nefndar aftur þegar í stað þannig að ný 2. umr. geti hafist þegar fyrir liggja þær breytingar sem verða gerðar á málinu. Þetta liggur ekki síst í því eðli að eftir að Alþingi fór að starfa í einni deild þá er mjög mikilvægt að menn bíði ekki með það til 3. og síðustu umr. að umturna kannski málum. Þá er enginn öryggisventill eftir. Það er gegn anda þingskapanna sem voru innleidd hér upp úr 1990, eins og forseti þekkir, að standa svona að málum. (Forseti hringir.) Hæstv. forseti hlýtur að sjá það sjálfur (Forseti hringir.) að það er efnisleg og sanngjörn (Forseti hringir.) krafa að málið fari núna aftur til nefndar.