144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ánægður að heyra það frá hv. þm. Björt Ólafsdóttur, sem á sæti í atvinnuveganefnd, að hún hafi verið sátt við vinnubrögðin og taki undir með mér að vel hafi verið unnið að málinu í nefndinni. En það kemur fram hjá henni að margt sé enn óunnið. Það má vel vera í ljósi síðustu umræðna um málið, en það mat kom ekki fram innan nefndarinnar áður en við afgreiddum það út. Og þannig höguðum við því í nefndinni, svo að það sé algjörlega skýrt, að farið var yfir það á fundi að við hygðumst taka málið út á næsta fundi nefndarinnar. Þegar á þann fund var komið var enn óskað eftir því að gerður yrði frestur á því, af því að fólk átti eftir að kynna sér nefndarálit og annað sem lá fyrir, þannig að því var frestað enn og aftur að taka málið út. Það var því góður fyrirvari gefinn á því áður en málið var tekið út í nefndinni og engin umræða og engar athugasemdir komu fram um að það væri ekki tækt til þess að vera tekið út.