144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:51]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég heyri það á hv. þingmönnum sem tjá sig að málið snýst ákaflega mikið um mína persónu í þessu máli og frekjulegan yfirgang minn við að ljúka málsmeðferð þess og þvinga það til 2. umr. Það má skilja á orðum hv. þingmanna að þannig hafi málinu verið hagað. Ég veit ekki, virðulegur forseti, hvort hv. þingmenn hafi hlustað á það hvernig ég fór yfir málið.

Við erum níu í hv. atvinnuveganefnd og það var enginn þingmaður sem gerði athugasemdir við þá málsmeðferð sem þar var viðhöfð, enginn. Það var enginn þingmaður neins flokks sem gerði athugasemd við að málið yrði tekið út. Það var gefinn góður aðdragandi að því að málið yrði tekið út. Það var ekki eins og það kæmi upp á síðustu metrum á fundi heldur var búið að tilkynna að málsmeðferðinni væri lokið og tímabært væri að senda málið í umfjöllun. Það komu engar athugasemdir við þetta af hálfu nefndarmanna.

Virðulegur forseti. Ef mönnum líður eitthvað betur með það að kasta hér (Forseti hringir.) óhróðri um hv. formann nefndarinnar verður svo að vera.