144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:54]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Af því að Samband íslenskra sveitarfélaga er sérstaklega nefnt í þessu sambandi vil ég greina frá því að við fengum erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, ábendingar, þegar vel var liðið á málsmeðferðina. Við kölluðum þá á aukafund og fórum alveg sérstaklega yfir málið með þeim. Við höfðum samráð við ráðuneytið um að gera ákveðnar breytingar á málinu á síðustu metrum málsmeðferðarinnar til að mæta meðal annars sjónarmiðum þeirra. Það má vel vera að þeim þyki ekki nóg að gert og ekki ólíklegt að það atriði hversu gengið er á skipulagsrétt sveitarfélaga í þessu máli eigi eftir að valda ágreiningi af þeirra hálfu, einhverra alla vega á þeim vettvangi. Það er ekkert óeðlilegt. En það er gert á sambærilegan hátt og hv. Alþingi hefur gert áður í svipuðum málum og ég nefndi mál því til rökstuðnings áðan.

Í þeim anda sem við höfum unnið í málinu í nefndinni, sem er að reyna að ná sem víðtækastri sátt, munum við taka málið til umfjöllunar á milli 2. og 3. umr. og bíðum spennt eftir að geta hafið þá vinnu.