144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:55]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það fer að verða svolítið þreytandi að hv. formaður atvinnuveganefndar sé að lýsa skoðunum okkar þingmanna í atvinnuveganefnd, að hann telji sig til þess fallinn að lýsa því hvaða skoðanir við höfum á hinum ýmsu málum sem við fáum til athugunar fyrir nefndinni og hvort það sé sátt um þau, mikil ríkjandi sátt. Ég veit ekki betur en að maður hafi spurt alla þá sem komu fyrir nefndina gagnrýninna spurninga. Þurfa menn að vera með háreysti og læti til að geta haldið skoðunum sínum til haga í ljósi umsagna þegar málið er rætt eftir marga fundi? Það gagnrýnir enginn að haldnir hafi verið margir fundir um þetta mál.

Það er annað að skoða en að taka tillit til þeirra umsagna sem komu til nefndarinnar. Það hlýtur að vera niðurstaðan í þessu máli að ekkert tillit var tekið til þeirrar gagnrýni sem kom á það. Eitt orð breyttist, (Forseti hringir.) „skipulagsmál“ varð að „skipulagsákvarðanir“, og (Forseti hringir.) svo dagsetningin.