144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:56]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hagar þannig til um mál í þinginu almennt að um þau getur verið ágreiningur. Það er alveg ljóst í þessu máli að menn hafa skiptar skoðanir á því hversu langt á að ganga og þá er ég að vitna til þeirra gesta og umsagnaraðila sem nefndin hefur fengið á sinn fund og þeirra umsagna sem núna liggja fyrir. Í þeim koma fram mjög skiptar skoðanir manna. Það er auðvitað þingnefndar að vinna úr þeim athugasemdum og ábendingum og koma fram með niðurstöðu sína, eða meiri hlutans með það sem er lagt fram í þinginu.

Ég er ekki að gera mönnum upp skoðanir eða eitthvað slíkt, en það var ekki óskað eftir því að við þyrftum að hitta oftar einhverja aðila, það var ekki óskað eftir því að við biðum eftir einhverjum öðrum eða því um líkt við afgreiðslu málsins. Ef það hefði verið gert hefði það, eins og í þessum málum, alveg örugglega verið tekið til skoðunar með jákvæðu viðhorfi. Það er bara svoleiðis. En það var í ákveðinni sátt sem málið var leitt út að því leyti. Menn geta síðan haft mismunandi (Forseti hringir.) skoðanir á því.

Virðulegi forseti. Ég get ekki að því gert en það læðist að mér sá grunur (Forseti hringir.) að þær þrætur sem við stöndum í nú eigi sér kannski aðrar rætur (Forseti hringir.) en í nákvæmlega þessu máli.