144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[13:58]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Gagnrýni á þetta mál snýst ekki um fjölda funda heldur þá niðurstöðu að ekkert tillit er tekið til þeirrar veigamiklu gagnrýni sem kemur fram í umsögnum. Af þeim orsökum er ég með sérnefndarálit með frávísunartillögu á málinu, vegna þess að meðal annars Samband íslenskra sveitarfélaga segir að málið sé algjörlega vanbúið og mikil gagnrýni hefur komið fram frá umhverfis- og samgöngunefnd, Landvernd, Skipulagsstofnun og fleiri aðilum.

Ég vil gjarnan spyrja hv. þingmann: Ræða þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekkert í þingflokki sínum þá skoðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins og gagnrýni á þetta mál að það sé ekki vel unnið og að það hefði þurft að taka tillit til fjölda atriða? Það kemur fram í umsögn meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Af hverju er ekki tekið tillit til þess af hálfu sjálfstæðismanna og rætt manna á milli?