144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

kvöldfundur.

[14:51]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég batt satt að segja vonir við að það kæmi eitthvað gott út úr þeim fundi sem hæstv. forseti hélt með þingflokksformönnum áðan. Það sem virðist hins vegar hafa komið út úr honum er ekkert annað en að hér er boðaður kvöldfundur þannig að fundur sem ég vonaðist til að væri sáttafundur í þessu máli hefur sennilega snúist upp í andhverfu sína. Virðulegur forseti hlýtur að hafa áhyggjur af þessari stöðu því að hér er ágreiningur á milli meiri hluta nefnda. Hv. stjórnarþingmenn í atvinnuveganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd takast hér á. Það eru umsagnir frá aðilum sem vega þungt sem benda á atriði sem hæglega má laga og ég bið hæstv. forseta að endurskoða nú hug sinn og kalla frekar til stjórnir beggja nefnda, atvinnuveganefndar og umhverfis- og samgöngunefndar, og reyna að finna (Forseti hringir.) sáttaflöt í þessu máli.