144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

kvöldfundur.

[15:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hvers vegna er óskað eftir því að þetta dagskrármál gangi til nefndar áður en umræðan heldur áfram? Ástæðan fyrir því er sú að hv. formaður atvinnuveganefndar, Jón Gunnarsson, hefur séð ástæðu til að ganga í ræðustól Alþingis og biðjast afsökunar á framkomu sinni í málinu. Hann hefur sömuleiðis séð ástæðu til að láta ryðja sérstaklega dagskrána fyrir sig í upphafi fundar til að tilkynna um tvær veigamiklar breytingar sem þurfi að gera á málinu af því að það hafi verið vanbúið til að koma til 2. umr. Þegar þannig hefur verið kastað til höndunum og staðið þannig að málum að sjálfur þingmaðurinn sem í hlut á hefur séð sig knúinn til að biðjast afsökunar opinberlega á því er ekki nema eðlilegt að eftir því sé óskað að nefndirnar fundi saman, eða forusta nefndanna, og fari yfir þær athugasemdir sem fram komu. Það er komið á daginn að það var rétt hjá stjórnarandstöðunni að vinnubrögðin (Forseti hringir.) voru til skammar og málið svo illa búið að nefndin sjálf hefur þegar lýst því yfir að hún þurfi að laga það.