144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

kvöldfundur.

[15:04]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir snerti einmitt kannski kjarna vandans. Hér eru vinnubrögðin svo gamaldags að með fautaskap eru mál flutt þangað sem það þykir henta. Svo þegar látið er svo lítið að biðja um umsagnir frá fagnefndum er ekki tími til að bíða eftir þeim, enda vissi meiri hluti atvinnuveganefndar kannski að umsögnin frá meiri hluta umhverfisnefndar yrði ekki það jákvæða álit sem hann hefði viljað fá. Það var kannski þess vegna sem lá svo á að koma málinu á dagskrá þvert á það sem hæstv. ráðherra, flutningsmaður málsins, fór yfir í framsöguræðu sinni þegar hún mælti fyrir málinu. Hún óskaði eftir vandaðri umfjöllun og sátt um málið. Þeirri sátt er hægt að ná en ekki með gamaldags vinnubrögðum og fautaskap.

Ég legg til að þetta mál verði tekið af dagskrá og unnið í nefndum þingsins (Forseti hringir.) enda er það óburðugt eins og það er núna á dagskránni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)