144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir einkar skörulega ræðu. Ég verð að viðurkenna að honum tókst að setja mitt góða þingmál um endurreisn ísaldarurriðans í óvænt samhengi. Hann hugsaði sjálfan sig aftur til baka og velti því fyrir sér hvað hefði þá gerst ef það kerfi sem við búum við í dag hefði ríkt 1959. Þá er það náttúrlega algerlega ljóst, eins og hv. þingmaður sagði, að sú virkjun hefði aldrei verið gerð. Á þeim tíma voru engar rannsóknir gerðar á lífríki Efra-Sogsins og er líka rétt að rifja það upp að þetta varðar í reynd meira en urriðann. Þingvallavatn er ein okkar dýrasta perla en lífríki þess beið alvarlegan hnekki vegna þessarar virkjunar og það var áratugum saman að ná sér aftur og það er ekki fyrr en undir hin síðustu ár sem það hefur tekist.

Ég er algerlega sammála hv. þingmanni um nauðsyn þess að hafa gott kerfi til að rekja sig til niðurstöðu í svona málum. Það er vörn okkar gegn því að ágengni mannsins raski um of náttúrunni. Það sem skiptir langmestu máli þegar deilur rísa, sem munu óhjákvæmilega alltaf verða um línulagnir, er að þegar búið er að setja það niður, þegar komin er niðurstaða séu menn sáttir. Sennilega geta menn aldrei orðið sáttir en það væri gott ef þeim fyndist að minnsta kosti að þeir hefðu fengið sanngjarna málsmeðferð og hefði tekist að koma sjónarmiðum sínum fyrir rétt stjórnvöld til úrskurðar. Það er það sem vantar í þetta frumvarp, það eru skýrar heimildir fyrir kærur. Það mundi strax líta betur út í mínum augum ef þær væru skýrar. Hvað segir hv. þingmaður um það?