144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:38]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði í upphafi síns máls að hann hefði hlustað á prúða ræðu hv. þm. Jóns Gunnarssonar og þótt þar ýmislegt til sátta fallið. Ég get svo sem tekið undir það. Eitt af því sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi sérstaklega var að formaður atvinnuveganefndar virtist tilkippilegur til þess að fara með kerfisáætlanir með svipuðum hætti og samgönguáætlanir, þ.e. að áætlanir yrðu lagðar fyrir þingið og þar með fengju fulltrúar fólksins tækifæri til að fjalla um þær.

Já, það er gott svo langt sem það nær en eins og ég hef skilið hvað felst í orðinu kerfisáætlun eins og það er skilgreint í frumvarpinu þá er m.a. gert ráð fyrir því að inn í áætlanir séu teknir virkjunarkostir sem eru í bið. Fyrir mér er það svona svipað og að leggja fram samgönguáætlun þar sem varið er stórkostlegum fjárhæðum til vega sem allsendis er óvíst að verði lagðir. (Forseti hringir.) Kerfisáætlun stendur aldrei undir nafni á meðan það er við lýði.