144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:51]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef ekkert við það að athuga og hygg að stjórnarandstaðan hafi ekki haft neitt við það að athuga þótt hæstv. forseti hafi hleypt formanni atvinnuveganefndar að í umræðunni á undan þeim sem var næstur á mælendaskrá. Ég túlka það þannig að forseti hafi verið að gera tilraun til sátta. Síðan var spurningin: Hvernig var sú tilraun nýtt af hálfu formanns atvinnuveganefndar? Ég taldi framan af máli hans að hann ætlaði að teygja sig í áttina til okkar sjónarmiða þegar hann talaði um að það þyrfti að lýðræðisvæða frumvarpið, þó að það væru ekki hans orð, en síðan fór tal hans út í allt annað og hann vildi hvergi taka þeim rökum okkar að taka málið að nýju inn í þingnefnd. Þetta tækifæri var ekki nýtt, því miður.

Ég hef ekki næga þekkingu á því hvernig nákvæmlega á að bera sig að til að setja fram handfastar tillögur að öðru leyti en því að ég tel að tryggja þurfi á kerfislægan hátt aðkomu sveitarfélaganna að ákvörðunum sem teknar eru í þessum efnum svo og Landverndar eða annarra umhverfissamtaka. Það þarf að tryggja á kerfislægan hátt. Við höfum líka talað um að það eigi að vera skýrir möguleikar til að setja fram kærur og að um kæruferlið skuli vera betur búið en hér er gert þannig að ég ætla að halda mig við hin almennu grundvallaratriði. Það þarf að lýðræðisvæða þetta, það þarf að tengja þetta þinginu og umhverfisvæða, sem ég vil kalla, þ.e. (Forseti hringir.) gefa umhverfisverndarsamtökum færi á að koma að ákvörðunum, ekki bara kærum.