144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:01]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér í þingsal fór fram atkvæðagreiðsla samkvæmt þingsköpum. Í 2. mgr. 78. gr. þingskapalaga segir: „Skylt er þingmanni að vera viðstaddur og taka þátt í atkvæðagreiðslu nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi.“

Virðulegi forseti. Þetta er skýrt í þingsköpum. Hér fylgdumst við með því að hér fór fram atkvæðagreiðsla. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sáust hér á vappi í hliðarsölum Alþingis, koma inn í þingsalinn um leið og atkvæðagreiðslu er lokið. Ég vil vita, virðulegi forseti, hvort ekki sé ástæða til að taka þetta upp á fundi í forsætisnefnd og skoða til hvaða aðgerða er hægt að grípa þegar þingmenn virða ekki þá grunnskyldu að mæta til atkvæðagreiðslna í þinginu, eru staddir í húsi, eru í hliðarsölum Alþingis en mæta ekki í atkvæðagreiðslur.