144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:07]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mjög sérkennileg staða er komin upp, að menn sitja í hliðarsölum í stað þess að ganga inn í salinn og greiða atkvæði. (JónG: Sinna lögbundnum skyldum sínum.) Það er einfaldlega þannig [Kliður í þingsal.] að þingmaðurinn var að greiða atkvæði. (Gripið fram í: Nei.) (Gripið fram í.) Við þekkjum það öll, hv. þingmenn, að þingmenn sinna störfum sínum ekki eingöngu við bekkinn í þingsalnum. Þingmenn eru á fundum úti um allan bæ, þingmenn eru að sinna öðrum störfum og þegar boðað er til atkvæðagreiðslu með skömmum fyrirvara hefur það auðvitað gerst áður að það tekur fólk tíma að koma sér í salinn. En það að sitja í hliðarsalnum og sinna ekki þeirri skyldu sinni að stíga inn fyrir og greiða atkvæði er með hreinum ólíkindum. Ég bið stjórnarandstöðuna að hugsa sig aðeins um. Hvers vegna ræðir hún ekki frekar málið sjálft málefnalega í stað þess að vera í einhverjum klækjastjórnmálum og reyna að slá um sig með einhverjum klækjabrögðum og ræðum um fundarstjórn forseta?

Herra forseti. Það vakti athygli mína að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon (Forseti hringir.) hrósaði hv. þm. Ásmundi Einari Daðasyni fyrir að vanda um við okkur. En hann var alls ekki að því, hann las einfaldlega upp fyrir okkur úr þingsköpunum og ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefði gott af því að lesa þessa grein.