144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að hafa ekki náð hingað í tæka tíð fyrir þessa atkvæðagreiðslu en þannig lagað gerist. (Gripið fram í.) Ég held að ég hafi aldrei orðið vitni að öðru eins, að hv. stjórnarþingmenn sem hafa ekki látið sjá sig hér í allan dag skuli koma upp grátandi yfir því að vera kallaðir út í atkvæðagreiðslu. Það er það sem er að gerast hér. (Gripið fram í.) Menn eru að kveina undan því að vera kallaðir inn í þinghús til að sinna störfum sínum, stjórnarmeirihlutinn hér. Það er einfaldlega það sem er í gangi. Ég vona að þeir sömu og eru að kalla eftir málefnalegri umræðu hér um málið sem er á dagskrá verði þá í salnum og ræði við okkur málefnalega eða í það minnsta hlýði á það sem hér verður sagt um málið.

Staðreyndin er þessi: Við erum trekk í trekk búin að rétta fram sáttarhönd í málinu. Við erum búin að spila út lausnum sem meira að segja hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, er núna að reyna að gera sumar að sínum og taka undir. Hvers vegna taka menn þennan slag, (Forseti hringir.) skapa ókyrrð í salnum út af málum sem við getum vel sest niður og leyst? Það er vegna þess að þetta snýst um stolt eins manns, og á þingið að snúast um stolt eins manns?