144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur til upplýsingar hljóða ákvæði þingskapa um það að skylt sé að sækja þingfundi. Það gerði hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir ekki og það segir nokkuð um þingmanninn að hún skuli síðan ganga í ræðustólinn og tala um skyldur annarra þingmanna. Það sem hér var pínlegt var að þegar meiri hlutinn í þinginu ákvað að grípa til ofríkis þurfti forseti Alþingis að sitja undir því að aðeins 15 af 38 þingmönnum stjórnarliðsins virtu ákvæði þingskapa um að þeir ættu að sitja þingfundi nema lögmæt forföll hömluðu. Aðeins einn af þessum 23 sem vantaði hafði tilkynnt um forföll. Hinir 22 höfðu ekki virt þingsköp Alþingis og það var neyðarlegt að forseti Alþingis þurfti einu sinni að aflýsa atkvæðagreiðslu vegna þess að hans eigin liðsmenn höfðu ekki döngun í sér til að mæta á þingfund. Það var enn neyðarlegra þegar hæstv. forseti Alþingis þurfti í annað sinn að aflýsa atkvæðagreiðslu eða því sem næst, hefði þurft að gera það ef það hefði ekki viljað til happs að (Forseti hringir.) hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir sá sér loksins fært að sinna skyldum sínum og sækja þingfund.