144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:22]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Af því að þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sögðust ekki alveg átta sig á um hvað málið snerist er allt í lagi að benda á að það er rétt að það kom nefndarálit frá meiri hluta atvinnuveganefndar en það kom líka umsögn frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar um þetta mál og í henni eru talin upp ákveðin atriði sem eru að í þessu máli. Þar segir beinlínis:

„Meiri hlutinn geldur varhuga við framangreindum atriðum og telur að leggja þurfi meiri áherslu á samráð allra aðila og að samráðið fari fram fyrr í ferlinu …“

Ekkert tillit var tekið til þessarar umsagnar og um það snýst málið, þ.e. að við erum að óska eftir meira samráði og meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar og undir þetta rita hv. þingmenn Höskuldur Þórhallsson, Haraldur Einarsson, Birgir Ármannsson, og Vilhjálmur Árnason ásamt Jóni Þór Ólafssyni. Þetta er það eina sem beðið er um, þ.e. að menn stöðvi aðeins hraðann í þessu, fari í gegnum það sem hér er sagt þar sem goldinn er varhugi við ýmsum atriðum og reyni að finna einhverja lendingu í málinu. Þetta segi ég til upplýsingar fyrir þá sem ekki hafa verið við umræðuna.