144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:24]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Menn deila um eftir hvaða þáttum í þingsköpum Alþingis á að fara sem auðvitað eru lög sem við eigum að fara eftir. Gildir það að menn eigi að sækja þingfundi? Já. Eigum við að mæta í atkvæðagreiðslu? Já. En þar er líka ákvæði sem er búið að lesa upp hér áður, 4. mgr. 23. gr., þar sem kveðið er á um að það skuli prenta upp umsagnir nefnda sem falið er að veita umsögn samhliða áliti nefndar. Það hefur verið þverbrotið í þessu máli sem er eitt af því sem veldur hér ágreiningi. Það er beðið um umsögn frá umhverfis- og samgöngunefnd, síðan kemur atvinnuveganefnd með álit og það er ekki fyrr en minni hlutinn í atvinnuveganefnd tekur upp umsögnina frá báðum aðilum, meiri og minni hluta í umhverfis- og samgöngunefnd, sem hún kemur fram. Við þurfum að vanda okkur miklu betur og þess vegna er verið að ræða þetta mál núna. Það hefur verið illa að því staðið hvað varðar framkvæmdina og þegar menn taka svo afstöðu með öðrum aðilum og segja: Já, já, völtum bara yfir alla með þessu, bregðast menn við. (Forseti hringir.) Ég vek athygli á því að starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar, hv. þm. Katrín Júlíusdóttir, hefur ítrekað talað hér. Hún er í húsi til að setjast niður með hv. formanni atvinnuveganefndar til að reyna að leysa þetta mál.