144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:25]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þessi atgangur er farinn að minna töluvert á frægan bardaga sem var háður á bökkum Rangár og er sagt frá í Njálu þó að ég vilji af virðingu fyrir því samfélagi sem hér er ekki rifja upp ummælin sem höfundur Njálu hafði um bardagann. Þingmenn vita líka að mér er fátt kærara en að fá að deila með þeim kjörum, sérstaklega tíma. Það kryddar tilveru mína óneitanlega töluvert að fá að vera hér með þeim nætur og kvöld svo mér er ekkert að vanbúnaði. Meiri hlutinn ræður og hann hefur farið þá leið að vilja hafa kvöldfund. Það er fínt en menn verða hins vegar að vera klárir á því að þegar mönnum er mikið niðri fyrir grípa þeir stundum til óhefðbundinna ráða. Þetta er auðvitað óhefðbundið hjá stjórnarandstöðunni og af því ættu hæstv. forseti og stjórnarliðar að draga þá ályktun að okkur er mikið niðri fyrir. Hér hafa tveir talað sem ekki hafa kannski efni á að skamma stjórnarandstöðuna. Það eru hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir. 27. mars (Forseti hringir.) 2012 leiddu þau Sjálfstæðisflokkinn út um miðja nótt í atkvæðagreiðslu um stjórnarskrána til að ónýta hana. Fyrir þessu er sögulegt fordæmi og hv. þm. Ásmundur Einar Daðason á að þekkja þessa sögu. Hún er í bók sem hann hefur lesið. (ÁsmD: Rétt.)