144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

lengd þingfundar.

[16:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Já, það er svolítið einkennilegt að það er eins og við séum stödd á Sturlungaöld hérna inni, en það fer því miður að líkjast því að við séum stödd þar. Er það vilji hæstv. forseta að málin séu þannig að menn séu í eilífum bardaga um það hver sagði hvað, hver gerði hvað og annað og að menn séu að ásaka hver annan um eitthvað slíkt? Er það vilji hæstv. forseta að málið þróist á þennan veg? Ég tel varla. Þess vegna er það ansi mikið í hans höndum að grípa inn í. Sumir hv. þingmenn eru vopnaglaðari en aðrir og leiða til þess að stjórnarandstaðan verður að grípa til þess sem hún hefur, að beita öflugum málflutningi til að tala fyrir þeirri gagnrýni sem hefur komið á þetta mál. Það er alveg eins og stjórnarliðar loki augunum fyrir því að gífurleg gagnrýni hefur komið á þetta mál, ekki bara frá vondum vinstri mönnum eða umhverfissinnum sem eru eitur í þeirra beinum (Forseti hringir.) heldur frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem hlýtur að vera þverpólitískt og taka ætti mark á.