144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir spurningarnar sem til mín er beint.

Já, ég vil eiginlega taka undir það að ég upplifi það líka þannig að umhverfismálin séu sett út í kuldann, þeim sé ekki gefið mikið vægi. Við sjáum það núna trekk í trekk að málum er einmitt beint til hv. atvinnuveganefndar og svo er hv. umhverfis- og samgöngunefnd fengin til að gefa álit, en svo er ekkert gert með það.

Hv. þingmaður spurði einnig hvort ég teldi að málið hefði verið betur komið hjá annarri fagnefnd, þ.e. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég er ekki endilega viss um það, ekki eingöngu alla vega. Þetta er mál sem tekur til þátta sem ég held að tilheyri báðum nefndum og þess vegna finnst mér það svo sárgrætilegt að ekki sé hægt með einhverjum hætti að koma á einhverju skipulagi um það hvernig samvinnu eða samstarfi er háttað, eða hvernig fara skuli með álit frá ólíkum nefndum þegar málefnasvið þeirra skarast svona eins og er innan þessa máls, því að samfélagið er ekki aðskildir kassar sem hvergi mætast. Samfélagið er miklu meira flæðandi og lifandi. Ég held að við þurfum að koma því einhvern veginn inn í störf okkar hér að geta tekið einmitt mið af því að til þess að stýra einu samfélagi þurfum við að taka tillit til svo margra þátta og þess vegna verði að vera einhverjir verkferlar um það hvernig við vinnum málin þegar þau eiga heima hjá fleiri en einni nefnd.