144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég held að það sé alveg ljóst að umhverfismálin þurfa sterkari málsvara. Það hefur einmitt skort mjög á það að mínu mati á kjörtímabilinu að umhverfismálin hafi málsvara sem virkilega lætur til sín taka, og maður trúi og fái á tilfinninguna að honum sé annt um þau. Ég hef því miður ekki enn séð okkar nýja hæstv. umhverfisráðherra tala nýlega þannig að ég fyllist eldmóði með henni. En það þurfa auðvitað fleiri en bara þeir sem annaðhvort gegna embætti hæstv. umhverfisráðherra eða sitja í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að láta umhverfismálin sig varða, vegna þess að umhverfismálin eru einhver brýnustu og mikilvægustu mál okkar samtíma, held ég, og því þurfa þau auðvitað að ná út til allra nefnda.

Því miður hefur mér fundist skorta mjög á það að meiri hluti hv. atvinnuveganefndar, og þá kannski ekki hvað síst hv. formaður þeirrar nefndar, ef hann ekki gerir umhverfissjónarmiðin að sínum, að hann hlusti þá í það minnsta á aðra og sýni smáhógværð í því að taka til sín þær ábendingar sem berast, eins og frá einmitt hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Hann ber kannski ekki einn ábyrgð þar. Mér finnst að þingflokkur hans allur ætti að láta þessi mál meira til sín taka og setja (Forseti hringir.) pressu á hv. þm. Jón Gunnarsson að sýna þar (Forseti hringir.) hógværð og taka meira tillit til umhverfismála.