144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hittir naglann á höfuðið hér undir lok ræðu sinnar, það er ekki nokkur leið að greiða atkvæði þegar hv. atvinnuveganefnd hefur enn ekki tekið afstöðu til þeirra ábendinga sem birtast í umsögn hv. umhverfis- og samgöngunefndar, sem er ekki tekin til umfjöllunar. Hér hafa menn bent á að umhverfis- og samgöngunefnd hafi skilað áliti sínu seint og stundum velti ég því fyrir mér hvort við séum ekki öll að vinna í sama húsinu, hvað þurfi til þess að menn taki upp símann og spyrji: Er álitið ekki á leiðinni? Það virðist nánast vera ókleifur múr á milli þessara nefnda. Ég tek því undir með hv. þingmanni um nauðsyn þess að áður en þessari efnisumræðu verði lokið verði henni frestað til að atvinnuveganefnd geti tekið afstöðu til þeirra álitamála.

Þá kem ég að því sem mig langar að spyrja hv. þingmann sérstaklega um. Það er ýmis gagnrýni sem hér er uppi á þetta frumvarp. Hún snýst um sjálfstæði sveitarfélaga, hún snýst um ónóga umfjöllun sem kerfisáætlun á að fá í þinginu og er samgönguáætlun nefnd til samanburðar, en hún nefnir líka forsendurnar á umhverfismálin sem eru fjarverandi í frumvarpinu. Hvað telur hv. þingmaður að þurfi að gera til að skapa þá sátt sem hv. formaður atvinnuveganefndar hefur talað fyrir? Er of langt bil á milli manna ef marka má umsögn umhverfis- og samgöngunefndar annars vegar og hins vegar nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar? Hvað telur hv. þingmaður að mundi bæta þetta mál þannig að líkur væru til þess að meiri sátt skapaðist um það?