144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:35]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er svo merkilegt, í ljósi þess að sjálfstæði sveitarfélaga er undirstrikað í gildandi stjórnarskrá landsins, og henni hefur nú verið flaggað af minna tilefni hér á árum áður í þessum þingsal, að hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans telji eðlilegt að skerða skipulagsvald sveitarfélaga með þessum hætti. Þegar við skoðum þessar 200 bls. af umsögnum þá eru umsagnir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og einstökum sveitarfélögum mjög fyrirferðarmiklar.

Mig langar að lokum að spyrja hv. þingmann um þennan lýðræðishalla sem mér finnst einkenna frumvarpið frá upphafi til enda, ekki aðeins hvað varðar sveitarfélögin heldur líka varðandi aðgengi Alþingis að ákvarðanatöku, því að ekki er ætlunin að þessi áætlun komi hér til umræðu. Einhver sagði hér á fyrsta degi umræðunnar að þetta væri nánast eins og eitthvað sem hefði verið samið 1975 og mér finnst það. Mig langar að spyrja hv. þingmann um það hvort þarna hafi menn nánast misst af þeirri miklu þróun sem hefur orðið í lýðræðismálum hér á landi (Forseti hringir.) hvað varðar almenna þátttöku í ákvörðunum, ekki síst þegar það er út af umhverfinu. Ég minni á Árósasáttmálann í þeim efnum. (Forseti hringir.) Telur hv. þingmaður að þetta frumvarp geti hreinlega staðist Árósasáttmálann?