144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:38]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Því miður er ekki mikið fjallað um umhverfismál í frumvarpinu og umhverfissjónarmiðum er ekki gert hátt undir höfði. Það er mjög gagnrýnt af ýmsum aðilum, í umsögnum þeirra. Skipulagsstofnun bendir meðal annars á að ekki þarf að fara fram neitt umhverfismat áætlana, sem á við aðrar áætlanir, eins og framkvæmdaáætlanir um aðra hluti, en þessi kerfisáætlun er undanþegin því. Mig langar að vita hvað hv. þingmanni þyki um það, því að þessi kerfisáætlun og hvernig lega flutningsmannvirkja verður hefur gífurlega mikið að gera með umhverfismál og hvernig gripið er inn í ýmsa þætti vítt og breitt um landið.

Orkustofnun kemur að því að samþykkja umhverfisáætlun og það hefur líka verið gagnrýnt að hún sé ekki nógu sjálfstæður aðili til að bera ábyrgð á því. Í þriðju tilskipun Evrópusambandsins er talað um sjálfstæðan og óháðan aðila. Ef við innleiðum hana, sem stendur til og er í undirbúningi, þarf að vera sjálfstæður og óháður aðili til að meta kerfisáætlun. Í þessu frumvarpi er það Orkustofnun, sem er undir ráðherra, og flokkast varla sem óháður aðili. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns gagnvart þessu.