144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:00]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir það að nauðsynlegt er að fá hingað ráðherra þeirra málaflokka sem mikil gagnrýni hefur komið á í sambandi við frumvarpið, bæði varðandi umhverfismálin og skipulagsmálin, ég tala nú ekki um að nýr hæstv. umhverfisráðherra komi hingað. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur metnað fyrir þessum málaflokki og málaflokkurinn kemur aldeilis inn á hennar svið í umhverfismálum. Það vantar algjörlega gleraugu þeirra sem láta sig umhverfismál eitthvað varða, því er hreinlega algjörlega kippt út úr frumvarpinu.

Varðandi sveitarfélögin eru þau auðvitað niðurlægð með frumvarpinu með mikilli skerðingu á skipulagsvaldi þeirra, svo að ég mundi nú halda að það væri keppikefli þeirra hæstv. ráðherra að hlusta á umfjöllun um málið og beita sér fyrir því að það væri tekið inn og því væri breytt og lagað.