144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Bæði ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon höfum verið í því hlutskipti að vera rifnir upp úr rúminu til þess að koma um miðjar nætur til fundar við þingið. Það var auðfengið af okkar hálfu, þótt það hafi að vísu verið með 20 ára millibili að ég hygg.

Ráðherrar og framkvæmdarvaldið eiga að koma þegar þingið óskar eftir því, það gerist ekki oft. Ég hef fullan skilning á því að hæstv. umhverfisráðherra kunni núna að vera upptekin við skyldustörf. Ég rifja þá upp að fyrir skömmu, eftir síðustu jól, óskaði þingið eftir því að hæstv. menntamálaráðherra kæmi til fundar við þingið. Hann var þá staddur á mikilvægum fundi í ráðuneyti sínu. En hann lauk fundinum þegar í stað og kom óðara til fundar við Alþingi, af því að hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson, alveg eins og hæstv. innanríkisráðherra, ber virðingu fyrir þinginu. Ég vil biðja hæstv. forseta að upplýsa hvenær hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra getur komið til fundar við þingið. Ég bið hann um að koma því á framfæri við hæstv. ráðherra að óskað sé eftir henni og að hann fái jafnframt upplýsingar sem hann getur flutt þinginu, hvenær það verði. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)