144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það blasir við og liggur fyrir skjalfest í þessu máli og hefði dugað flestum sanngjörnum mönnum að lesa bara álit meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar sem stjórnarliðar standa að. Þar er m.a. þessi setning sem hv. þingmaður vitnaði í, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn geldur varhuga við framangreindum atriðum og telur að leggja þurfi meiri áherslu á samráð allra aðila […] Að mati nefndarinnar eru framangreind atriði þess eðlis að töluverðra breytinga er þörf á frumvarpinu.“

Það þarf varla frekari vitna við. Það bætist svo við að það eru augljósar brotalamir í afgreiðslu meiri hluta atvinnuveganefndar á málinu þannig að færa má fyrir því býsna gild rök að hann hafi farið á svig við þingsköp. Hvers vegna segi ég það, virðulegur forseti? Jú, ég segi það vegna þess að 29. gr. þingskapalaga hefst á orðunum:

„Áður en nefnd lýkur athugun máls skal liggja fyrir tillaga að nefndaráliti til afgreiðslu.“

Það er óheimilt að taka mál út úr nefnd nema nefndarálit liggi fyrir. Sé ekki samstaða í nefndinni hvílir sú skylda á meiri hlutanum að leggja fram sitt nefndarálit, samanber það sem gerðist hér í vetur þegar fjárlaganefnd varð að taka mál inn aftur af því að hún hafði afgreitt það út án þess að nefndarálit lægi fyrir.

Síðan segir í 4. mgr. 23. gr., með leyfi forseta:

„Skal prenta umsagnir annarra nefnda með nefndaráliti um þingmálið.“

Meiri hluti atvinnuveganefndar gat ekki tekið málið út að réttu samkvæmt þingsköpum nema a) leggja fram sitt nefndarálit inni í nefndinni, b) að því fylgdu álit meiri hluta og minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar. Það var ekki gert heldur var það minni hlutinn sem eftir á bjargaði því að þingið að öðru leyti fékk að sjá álit umhverfis- og samgöngunefndar.

Þannig að ég verð að segja eins og er, herra forseti, af því að einstöku menn hafa nú komið hér (Forseti hringir.) upp í dag, stjórnarliðar, og ætlað að kenna okkur þingsköpin, ef maður væri í því skapi þá gæti ég talað um það sem eftir lifir þessa dags og (Forseti hringir.) lengur í hvert einasta skipti sem ég fengi orðið að við eigum að hætta þessu tafarlaust vegna þess að það átti sér stað brot (Forseti hringir.) á þingsköpum hjá hv. þingmanni, kappanum Jóni Gunnarssyni, þegar hann reif þetta mál út.