144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér er alltaf sérstök unun að því að hlýða á ræður hv. þm. Steingríms Jóhanns Sigfússonar, þannig að ég er þess albúinn að sitja hér allt kvöldið og nóttina og hlusta á hann halda þingtæknilegar ræður sem hann er mestur skörungur í af okkur sem hér sitjum. En vegna þess að hann rifjar upp það skref sem þingið tók með því að setja niður deildaskiptingarnar 1991 þá vil ég í upphafi míns andsvars árétta það að ég tala hér sem síðasti varaforseti neðri deildar.

Herra forseti. Ég tek algjörlega undir þær kröfur sem hv. þingmaður setur fram um það að umhverfis- og auðlindaráðherra komi hér til fundar. Að frátöldum framsögumanni þessa máls, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, hefur enginn þingmaður Framsóknarflokksins tjáð sig nema hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Og hv. framsögumaður hefur nú ekki sést í þessum sölum síðan við sáum undir hæla hans óðara sem hér hófst umræða af einhverju viti. Það liggur því fyrir að sá fulltrúi Framsóknarflokksins sem einn hefur vald og „átorítet“ að því er varðar umhverfismál og hefur hér talað er hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Og það liggur algjörlega skýrt fyrir að hann er þeirrar skoðunar, eins og álit það sem hann sendi frá sér sem formaður sýnir, að talsverðar breytingar þurfi að gera á frumvarpinu. Hann staðfesti sömuleiðis í orðaskiptum við mig að hann teldi að það þyrfti að færa inn í frumvarpið ákvæði um kæruheimild, sem er ekki að finna í því. Sömuleiðis var hann hér með miklar yfirlýsingar um hvað þyrfti að gera við kerfisáætlun hér í þinginu. Það er því ekki ljóst hvort Framsóknarflokkurinn fylgir þessu máli óbreyttu.

Því vil ég spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Telur hann hægt að halda þessum fundi áfram öðruvísi en það liggi fyrir að fulltrúi Framsóknarflokks í ríkisstjórn sem fer með málaflokkinn, (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra, komi til fundar og skýri sitt?