144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að biðjast velvirðingar að mér varð auðvitað á í messunni að nefna ekki og ávarpa sérstaklega hæstv. síðasta varaforseta neðri deildar sálugu, úr því að ég var að rifja hér upp breytingar á deildaskipan Alþingis á annað borð. En þetta er auðvitað hárrétt, hv. þingmaður hóf sína vegferð hér á þessum breytingum á vorþingi 1991.

Það er út af fyrir sig rétt að eini ræðumaður Framsóknarflokksins í umræðunni sem talað hefur sem þingmaður, ekki sem framsögumaður nefndar, er hv. þm. Höskuldur Þórhallsson. Hann var alveg afdráttarlaus í sinni afstöðu. Ég hlustaði á hv. þingmann rekja álit umhverfis- og samgöngunefndar og draga hvergi í land. Ég heyrði hv. þm. Höskuld Þórhallsson ekki draga úr einu einasta atriði sem þar stendur, þannig að þær standa óhaggaðar, a.m.k. af hálfu formanns umhverfis- og samgöngunefndar, ábendingarnar sem þar koma fram og varða m.a. skipulagsmálin og sveitarfélögin en líka umhverfismálin og þá tek ég undir það.

Mér finnst mjög mikilvægt að hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra komi hingað líka til umræðunnar og að hæstv. ráðherrar tjái sig. Það er til mikilla bóta að þeir mæti og hlusti en enn betra ef þeir bregðast við og svara spurningum og við verðum einhverju nær um það hvernig þeir meta stöðuna. Ég held að það hljóti að vera öllum ljóst að þetta mál er lent inni í öngstræti og það er ekkert annað en veggurinn fram undan, það er ekkert annað en bara járnbent steinsteypa fram undan ef menn ætla að keyra þetta svona áfram, það hlýtur öllum að vera ljóst. Málið verður ónýtt, bara fullkominn ófriður frá fyrsta degi um mál sem átti að setja niður deilur, búa til leikreglur, ramma, til þess að reyna að nálgast í meiri sátt ákvarðanir um þessi vandasömu mál. Það gæti ekki verið ógæfulegra en að ætla sér að reyna að halda þessu áfram í óbreyttum farvegi.