144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg dauðasammála því. Ég held að það liggi þannig að ef hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur ráðherra sinn á bak við sig og fleiri félaga sína í Framsóknarflokknum þá er þessi leiðangur dauðadæmdur hjá formanni atvinnuveganefndar og meiri hluta hans. Vonandi er það þannig vegna þess að það er algjör ófarnaður að halda þessu áfram.

Það sorglega er að í grunninn er hugsunin góð í þessu máli og mikill undirbúningur að baki allt frá tíð síðustu ríkisstjórnar. Í öðru lagi er það þannig, ef við förum yfir þetta efnislega, að það er ekkert óskaplega margt eins og hv. þingmaður réttilega kom inn á sem aðallega þarf að takast á við. Ef við tökum umsagnir Skipulagsstofnunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Landverndar og nokkurra fleiri aðila, má kannski einfalda það í fjóra þætti. Ég byrja einu skrefi framar en hv. þingmaður. Í fyrsta lagi verður að tryggja meira jafnræði milli aðila við undirbúning kerfisáætlunar og þar þarf að innbyggja einhvern sáttafarveg eins og sveitarfélögin biðja um þannig að menn fari ekki að takast á við það eftir á ef ekki hefur náðst samkomulag.

Í öðru lagi kæruleið, já, það þurfa að vera einhverjar slíkar leiðir innbyggðar í þetta.

Í þriðja lagi hallar á umhverfismálin. Á það bendir Samband íslenskra sveitarfélaga í umsögn sinni. Það er vel að það skuli vera á vaktinni fyrir þann málaflokk, svo maður tali nú ekki um umsögn Landverndar þar sem réttilega er bent t.d. á að það vantar inn í upptalninguna á friðlýstum svæðum og vernduðum svæðum þar sem sérstök ákvæði eiga að gilda.

Í fjórða lagi að niðurstaðan yrði að Alþingi staðfesti kerfisáætlun. Þá væri mikið unnið. Það er kannski ekkert mjög mikið meira en þetta sem þarf að takast á við. Fjórir, fimm afmarkaðir efnisþættir eða efnissvið af þessu tagi, þá væri hægt að ná miklu, miklu meiri friði og samstöðu um þessi mál og þá væri til einhvers unnið í staðinn fyrir það að verði þetta keyrt óbreytt í gegn þá skal ég standa við það (Forseti hringir.) sem ég heiti Steingrímur J. Sigfússon að það mun auka deilurnar um þessi mál en ekki draga úr þeim.