144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:41]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon krafðist þess af sinni alkunnu málafylgju að hingað til fundarins kæmu tveir hæstv. ráðherrar. Hæstv. innanríkisráðherra mætti til fundarins til að greiða fyrir þingstörfum og hv. þingmaður beindi til hennar a.m.k. einni kjarnaspurningu sem vakir í þessari umræðu, um brottnám skipulags sveitarfélaga við tilteknar aðstæður.

Ég tel að það mundi greiða ákaflega mikið fyrir umræðunni ef fram kæmi, því fyrr, því betra, afstaða hæstv. ráðherra sveitarfélaga, innanríkisráðherrans til þess. En síðan undirstrika ég hitt að ég hef tekið undir kröfu hv. þingmanns um að hæstv. auðlinda- og auðlindaráðherra komi til fundarins. Hún þarf ekki að vera lengi hér og gagnvart báðum þessum ráðherrum árétta ég að þeir hafa samkvæmt þingsköpum vald og leyfi til að koma inn í umræðuna hvenær sem þeir vilja, en hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra þarf ekki að (Forseti hringir.) vera hér lengi. Hún þarf bara að láta uppi hvort hún sé sammála hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og þá er meiri hluti fyrir breytingum, eða ekki.