144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[18:45]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil taka undir með hv. þingmanni. Ég get ekki alveg ímyndað mér hvað hæstv. umhverfisráðherra hefur mikilvægara að gera en að koma hingað og vera hér í svo sem hálftíma eða klukkutíma og verða við þeim óskum sem hér hafa verið bornar fram af fullri sanngirni. Mér finnst að hún ætti að taka hæstv. innanríkisráðherra sér til fyrirmyndar í því efni. Síðan sakna ég formanns atvinnuveganefndar hv. þm. Jóns Gunnarssonar en ég verð að segja að ég sakna líka svolítið framsögumanns málsins hér. Það eru ekki bara nefndaformenn sem eru potturinn og pannan í öllu heldur eru sérstakir framsögumenn fyrir málum og ég hef ekki séð framsögumann þessa máls (Forseti hringir.) hér í dag nema þegar hann var eitthvað óskaplega hneykslaður á því (Forseti hringir.) að þingmenn stæðu ekki sína plikt. Mér sýnist hann ekki standa sína plikt.