144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:17]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann kom inn á ýmis mál og endaði á að ræða um aðkomu Orkustofnunar að samþykkt kerfisáætlunar. Fram hefur komið gagnrýni á það að með innleiðingu á þriðju raforkutilskipun ESB eigi sjálfstæður og óháður aðili að taka kerfisáætlun til meðferðar. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort hann telji Orkustofnun geta uppfyllt það hlutverk, hvort hún sé ekki það tengd þessu öllu saman þar sem hún er undir ráðherra og undir orkumálastjóra. Eins og hv. þingmaður kom inn á leggur hún til fjölda kosta til skoðunar innan verkefnahóps 3 varðandi rammaáætlun og getur vart talist óháður aðili í þessum efnum.

Einnig langar mig að heyra hjá hv. þingmanni varðandi það sem kemur fram í frumvarpinu að til grundvallar kerfisáætlun eigi að liggja rammalöggjöfin og þeir kostir sem eru í nýtingu og biðflokki, ekki eins og bent hefur verið á að það ætti frekar að vera raforkuspá og þörf landsmanna til lengri tíma. Er eðlilegt að taka þetta til grundvallar þar sem ekki einu sinni liggur fyrir hvað verður nýtt og hvað verður virkjað, hvorki í nýtingarflokki og því síður í biðflokki?