144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[19:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur góðar spurningar. Fyrst varðandi skaðabótaábyrgðina — þetta er mjög athyglisverð spurning sem ég var nú ekki búinn að leiða hugann að áður svo að fullnægjandi væri. Við horfum á byggingu á turni í Reykjavík, í Skuggahverfinu, sem allir í borgarstjórn eru ósáttir við að sé byggður, hver einasti stjórnmálaflokkur og hver einasti borgarfulltrúi er á móti turninum. En vegna þess að hann er á skipulagi og að baki liggur tíu ára gömul samþykkt eru menn að byggja hann vegna þess að borgin hefur ekki talið sér heimilt að stöðva það og ekki mögulegt. Hér er verið að segja að sveitarstjórnum beri, eigi síðar en innan fjögurra ára frá samþykkt kerfisáætlunar, að samræma skipulagsáætlanir vegna verkefna í staðfestri tíu ára kerfisáætlun.

Með öðrum orðum, ef sveitarfélag er ekki innan fjögurra ára búið að breyta áætlunum sínum þá er það bara að brjóta lög. Og hver á þá að borga bæturnar til byggingaraðila sem þarf þá að þola að leggja eigi línu þar sem hann hafði ætlað sér að byggja o.s.frv.? Hver á að borga bæturnar? Er það ríkið? Þetta er mjög góð spurning.

Mér finnst líka vert að hafa í huga, út frá því sem ég var að tala um áðan, ofstærðun, að í 3. mgr., þar sem á að vera 9. gr. a, segir að við gerð kerfisáætlunar skuli byggja á raunhæfum sviðsmyndum. Nú þegar er Landvernd búin að stefna Landsneti vegna þeirrar kerfisáætlunar sem hefur verið sett fram. Landvernd telur að verið sé að byggja á allt of óraunsæjum forsendum, bæði um virkjunaráform og eftirspurn vítt og breitt í kerfinu. Þeir hafa fært fyrir því mjög sannfærandi og gild rök.

Þá spyr maður: Hver ber ábyrgð á ofstærðun á kerfinu? Er það bara sokkinn kostnaður? Er það þannig að það verði kostnaðarlaust fyrir (Forseti hringir.) flutningsfyrirtæki að leggja til allt of stórt kerfi (LRM: Lendir á neytendum.) og það lendir alltaf á neytendum, (Forseti hringir.) en áhættan sé öll á sveitarfélögum sem reyna að halda í sitt land eða hemja uppbyggingaráform?