144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:19]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst reyndar bara alveg augljóst að það þurfi að gera. Ég átta mig ekki alveg á því, hugsanlega hefur það verið rætt í hv. atvinnuveganefnd og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sem er fulltrúi þar fyrir sinn flokk getur þá sagt mér hvort það hafi ekki verið rætt, hvaða rök eru fyrir því að taka kerfisáætlun ekki til umfjöllunar á Alþingi eins og samgönguáætlun, byggðaáætlun og fleiri áætlanir. Ég átta mig ekki á því af hverju það er ekki gert, en væntanlega hefur nefndin farið vandlega yfir það. Fyrst hún gerir ekki tillögu um breytingar hlýtur meiri hlutinn að vera sammála því að gott sé að hafa þetta svona.

Markmiðið, að mér virðist, með frumvarpinu er að reyna að koma í veg fyrir að framkvæmdir m.a. við línulagnir strandi á deilum við sveitarfélög um skipulagsmál og lausnin á því sé bara í því fólgin að segja: Þið, þ.e. sveitarfélögin, hafið ekkert um þetta að segja. Sveitarfélögin eigi ekkert að hafa um þetta að segja. Þar eru kjörnir fulltrúar úr sveitarfélögunum og Alþingi á ekki heldur að fá að segja neitt um það þar sem fulltrúar Alþingis, sem kjörnir hafa verið á þing fyrir kjördæmin, gætu þá komið inn með þau sjónarmið. Það er hreinlega verið að segja: Það er bara bölvað vesen, þetta lýðræði, við skulum taka það úr sambandi þegar kemur að línulögnum. Það er alveg óásættanlegt viðhorf.