144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Herra forseti. Mig langar í síðari ræðu minni að draga aðeins saman það sem ég hef áður sagt um þetta mál, en fyrst langar mig að segja almennt um málefni sem varða umhverfið og náttúruvernd að það er svolítið tilgangur tilveru minnar í pólitík að fjalla um þann málaflokk. Ég hef auðvitað skoðanir á öllu mögulegu sem til starfa þingsins falla en þetta er kannski sá málaflokkur þar sem ég tel mig hafa bæði þekkingu og skoðanir sem séu þess virði að heyrist hér innan þings og kannski treysti ekki öðrum jafn vel og sjálfum mér til þess að bera þær fram, ef ég má orða það þannig. Í öðrum málaflokkum gætu kannski aðrir sinnt því betur en ég.

Þess vegna hef ég bæði á þessu kjörtímabili og því síðasta einbeitt mér að störfum innan umhverfis- og samgöngunefndar. Nú ber svo við á þessu kjörtímabili að ég hef velt fyrir mér hvort þetta sé ef til vill vanhugsað hjá mér. Það er nefnilega svo að á kjörtímabilinu hafa fjölmörg mál sem varða náttúruna, umhverfið, náttúruvernd og náttúruverndarlög, ekki verið til umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd heldur þvert á móti hafa þau verið til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, með sérstakri áherslu á atvinnuhluta þeirra mála. Ég nefni t.d. rammaáætlun um vernd og nýtingu, ég nefni náttúrupassann sem hefði mátt færa mjög sannfærandi rök fyrir að ætti að vera í umhverfisnefnd og reyndar líka efnahags- og viðskiptanefnd. Það mál sem hér er á ferðinni er auðvitað svolítið blandað mál. Það lýtur að mjög mörgu leyti að umhverfinu og því hvernig við komum fram við náttúruna og hvernig við skilum landinu okkar til næstu kynslóðar. Stór hluti þess fjallar um skipulagsmál sem vill svo til að heyra undir umhverfis- og samgöngunefnd og málefni sveitarfélaga sem líka heyra undir umhverfis- og samgöngunefnd. Þess vegna var það ekkert annað en sjálfsagt og skylt að leita að minnsta kosti umsagnar hjá umhverfisnefnd. Ég hefði talið eðlilegt að málið kæmi til afgreiðslu í umhverfis- og samgöngunefnd, en það fór til atvinnuveganefndar og þá er það að sjálfsögðu þannig að það bar að leita eftir áliti og ekki bara áliti heldur vinna málið í nánu samstarfi við umhverfis- og samgöngunefnd. Það hefði verið gráupplagt eins og stundum er sagt. Það var því miður ekki gert, en leitað var eftir umsögn. Hún var alveg á næsta leiti en meiri hlutanum í atvinnuveganefnd fannst hún ekki hafa skilað sér nógu fljótt og afgreiddi hún málið án þess að líta til umsagnar umhverfis- og samgöngunefndar, þótt það væri í rauninni bara spurning um nokkra klukkutíma til og frá.

Þetta ber að harma, ekki síst vegna þess að við erum að tala um mál sem ágætis samstaða er um í þinginu að þurfi að fara hér í gegn. Við erum að tala um löggjöf sem allir eru sammála um að sé nauðsynleg, fyrirkomulag sem er mjög til bóta. Í slíkum málum hlýtur að vera ákjósanlegt og eftirsóknarvert að reyna að afgreiða álit og breytingar, afgreiða málin þannig að sem víðtækust pólitísk sátt ríki um þau. Því miður hefur það ekki tekist í þessu máli og því miður er deilt um það. Það er algjör óþarfi að mínu mati. Það eru held ég, alveg burt séð frá allri flokkapólitík, mjög skiptar skoðanir á frumvarpinu. Það eru nokkur atriði í því sem mér heyrist að flestir í þinginu séu sammála um að þurfi að lagfæra og þá ætti málið að geta gengið nokkuð hratt og örugglega fyrir sig í gegnum þingið.

Þetta er líka málaflokkur sem er mikilvægt að ríki sátt um til lengri tíma. Þess vegna er enn þá þýðingarmeira að pólitísk sátt sé um afgreiðsluna. Það hefur því miður ekki tekist. Ég er reyndar ekki enn þá orðinn úrkula vonar um að það gæti náðst, ég er sæmilega bjartsýnn á að það ætti að takast ef menn væru tilbúnir til þess að taka málið til endurskoðunar á meðan þessari umræðu vindur fram eða með því að gera hlé á henni, þannig að það yrði okkur svolítið til sóma hvernig við hefðum staðið að þessu.

Ég vil í lokin á ræðu minni tæpa á þeim efnisatriðum í frumvarpinu sem ég held að megi fara betur og hefði þurft að skoða. Það er alveg rétt sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur bent á að hér er með mjög afgerandi hætti verið að taka af sveitarfélögunum umtalsverðan sjálfsákvörðunarrétt og án þess að það sé rökstutt með fullnægjandi hætti. Það er líka verið að veita stjórnsýslustofnun, í þessu tilfelli Orkustofnun, mikil völd á kostnað valda kjörinna fulltrúa, í rauninni á kostnað valda þeirra sem eru kjörnir ýmist til sveitarstjórna eða hingað til Alþingis. Ekki er innbyggð í kerfið með nægilega góðum hætti aðkoma almennings eða kjörinna fulltrúa almennings að málsmeðferðinni. Þess vegna væri eðlilegt og í samræmi við umsagnir sem borist hafa, t.d. frá Skipulagsstofnun, að byggja inn í ferlið einhvers konar aðkomu kjörinna fulltrúa. Á það hefur verið bent að það fyrirkomulag að leggja fram á fjögurra ára fresti þingsályktunartillögu um samgönguáætlun, sem kemur reyndar fram á tveggja ára fresti en gildir til fjögurra ára og til tólf ára, er mjög gott fyrirkomulag til þess að tryggja aðkomu kjörinna fulltrúa að ákvarðanaferli sem að mestu leyti er þó í höndum sérfræðinga. Það tryggir samt sem áður ákveðna lýðræðislega aðkomu. Með sama hætti mætti sjá fyrir sér að kerfisáætlun kæmi til umfjöllunar sem þingsályktunartillaga í þinginu. Ég held að það ætti að geta náðst samstaða um það atriði.

Það þarf að innbyggja í ferlið einhverjar kæruheimildir þannig að menn geti fengið ákvarðanatöku upptekna og geti nálgast það með einhverjum hætti. Það þarf enn fremur að skoða betur mjög víðtæka reglugerðarheimild sem lögin gera ráð fyrir að ráðherra fái þar sem hann fær heimild til þess að kveða á um kerfisáætlun flutningsfyrirtækis, upplýsingar sem skulu vera hluti af kerfisáætlun, eða hvernig skuli staðið að samráðsferli við undirbúning hennar, sem er náttúrlega mjög víðfeðmt og háð miklum túlkunum, framkvæmd hennar og eftirfylgni og m.a. hvaða úrræði Orkustofnun hefur til þess að kerfisáætlun sé fylgt eftir. Þá hefur ráðherra líka það vald samkvæmt frumvarpinu að setja reglugerð um það hvernig haga skuli valkostagreiningu og hvaða forsendur og aðferðafræði skuli styðjast við. Þetta er gríðarlega þýðingarmikið og afdrifaríkt atriði í frumvarpinu sem mér finnst hæpið að setja allt á herðar ráðherra. Mér finnst að það þurfi lýðræðislegrar umfjöllunar og úrlausnar við í þinginu hvernig þetta er leyst.

Þá er enn fremur í frumvarpinu gert ráð fyrir að í áætlanagerðinni sé byggt á nýtingarflokki rammaáætlunar sem við skulum láta liggja milli hluta, það er ekkert endilega þannig að þeir kostir sem eru komnir í nýtingarflokk séu að fara í virkjun. Mér finnst reyndar hæpið að byggja á því sem er í nýtingarflokki, mér finnst að byggja eigi á nánari útfærðari efnisatriðum eða hugmyndum, en að vísa í biðflokk rammaáætlunar eins og gert í frumvarpinu er algerlega fjarstæðukennt. Því þarf auðvitað að breyta.

Þetta eru kannski þau fjögur efnisatriði sem ég teldi að breytingar á mundu bæta frumvarpið til mikilla muna og vonast til þess að meiri hluti atvinnuveganefndar ráðist í þær breytingar.