144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[20:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég þakka forseta fyrir atbeina hans að málinu eftir því sem liðið hefur á daginn og fagna því að gera eigi hlé á fundinum núna kl. 9 til að menn geti rætt þetta mál sín í milli. Ég kynntist hér, nýjung fyrir mér, í fundarsköpum á þingfundinum fyrr í dag þegar forseti greiddi því leið að önnur sjónarmið gætu komist að í umræðunni með því að setja ræðumann fram fyrir á mælendaskrána. Það er kannski tímabært að gera það aftur núna og þó að stjórnarliðar hafi kosið með kvöldfundi þá hafa þeir ekki tekið þátt í umræðunni. En ég sé að hv. þm. Birgir Ármannsson situr hér í hliðarherbergi og það væri auðvitað ákaflega gott ef honum væri greidd leið fremst á mælendaskrána og hann gæti gert grein fyrir þeim fyrirvara sem hann hefur við nefndarálit meiri hluta umhverfisnefndar en hv. þm. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, hefur lagt ríka áherslu á að hv. þm. Birgir Ármannsson sé með fyrirvara við álit meiri hluta umhverfisnefndar, en það hefur enn þá ekki komið fram í umræðunni í hverju sá fyrirvari er fólginn.