144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Vestnorræna ráðið 2014.

478. mál
[22:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér skýrslu Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins en ég gegni formennsku Íslandsdeildarinnar. Með mér í deildinni sitja hv. þingmenn Vigdís Hauksdóttir, sem er varaformaður Íslandsdeildar, Katrín Jakobsdóttir sat í Vestnorræna ráðinu þar til 9. september 2014 þegar Lilja Rafney Magnúsdóttir tók hennar sæti. Jafnframt sitja í ráðinu Oddný G. Harðardóttir, Páll Valur Björnsson og Páll Jóhann Pálsson, sem kemur frá Framsóknarflokki.

Óhætt er að segja að margt hafi verið um að vera hjá Vestnorræna ráðinu á undanförnu ári. En það sem var helst í brennidepli hjá okkur á árinu var skýrsla sem var samþykkt að gera á ársfundi ráðsins í Grænlandi haustið 2013 varðandi norðurslóðir. Við fengum fræðimanninn Egil Þór Níelsson, sem starfar hjá Heimskautastofnun Kína, til að vinna fyrir okkur skýrslu þar sem eru greindir sameiginlegir hagsmunir landanna þriggja, Íslands, Grænlands og Færeyja, á norðurslóðum, og þá var sérstaklega verið að fjalla um efnahagslega hagsmuni. Ákveðið var þegar ráðist var í gerð skýrslunnar að þemaráðstefna ráðsins í janúarmánuði 2014 mundi fjalla um þær niðurstöður, enda héldum við veglega þemaráðstefnu í Sandey í Færeyjum þar sem farið var yfir skýrsluna.

Samhliða ársfundi ráðsins fundaði Vestnorræna ráðið með utanríkisráðherrum landanna þriggja þar sem fjallað var um skýrsluna. Ljóst er að þó að löndin hafi hvert fyrir sig stefnu í málefnum norðurslóða þá er það ráð að miða að sameiginlegri stefnu, alla vega á þeim sviðum þar sem við eigum sameiginlega hagsmuni. Þessi fundur með utanríkisráðherrunum var samhliða ársfundi Vestnorræna ráðsins á Íslandi í haust, í septembermánuði ef ég man rétt.

Vestnorræna ráðið stóð jafnframt fyrir málstofu á Arctic Circle í Hörpu í október, sem er stór ráðstefna þar sem fjallað er um norðurslóðamál. Við vorum með heila málstofu þar sem við fjölluðum um vestnorræna samvinnu á norðurslóðum og óhætt er að segja að það hafi verið afskaplega fróðlegt að taka þátt í þeirri vinnu, góðar umræður sem og gott tengslanet sem Vestnorræna ráðið tók þátt í að skapa þar.

Það sem er í rauninni hápunkturinn hvað varðar það ferli sem Vestnorræna ráðið sér fyrir sér varðandi framtíðina og gerðist á þessu ári er að við sóttum um áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu í ágúst sl. og fer að draga til tíðinda varðandi ákvörðun um hvernig þeirri umsókn mun reiða af.

Aðeins tvær ályktanir voru samþykktar á ársfundi Vestnorræna ráðsins sem haldinn var í Vestmannaeyjum og þær hafa báðar verið lagðar fram hér í þinginu, mælt fyrir þeim og þær eru nú til meðferðar í hv. utanríkismálanefnd. Sú fyrri fjallar um að óskað verði eftir því að meðlimir ráðsins geti sent fyrirspurnir til ráðherra landanna líkt og þekkist í Norðurlandaráði, en sú síðari fjallar um að draga úr losun brennisteins frá skipum í þeim tilfellum þar sem mengunin kemur til vegna notkunar svartolíu.

Þá voru tvær yfirlýsingar samþykktar á ársfundinum. Í þeirri fyrri voru ríkisstjórnir Íslands og Færeyja hvattar til að styðja viðleitni Grænlands til að öðlast viðurkenningu sem strandríki og fá þátttökurétt í samningaviðræðum strandríkja um uppsjávarfiska á jafnréttisgrundvelli. Í þeirri seinni var réttur vestnorrænu landanna til að nýta allar lifandi sjávarauðlindir hafsins á sjálfbæran hátt undirstrikaðar með sérstakri tilvísun í hval- og selveiðar, en umfjöllun um hval- og selveiðar hefur löngum tekið drjúgan skerf í umfjöllun Vestnorræna ráðsins á fundum ráðsins.

Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins hefur tekið öflugan þátt í fundum Vestnorræna ráðsins og þakka ég ágætt samstarf við alla þá hv. þingmenn sem setið hafa og sitja nú í deildinni. En auk þessara tveggja aðalfunda ráðsins þar sem allar deildirnar koma til, þ.e. þemaráðstefnuna sem haldin var í Sandey í Færeyjum og síðan ársfundarins sem haldinn var í Vestmannaeyjum, fundaði forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins með Evrópuþinginu, en það er árlegur fundur, samráðsfundur, þar sem farið er yfir stöðu mála. Sá fundur átti sér stað á síðasta ári, 28. mars, í Færeyjum og óhætt er að segja að það hafi verið fjörlegur fundur enda var hann á þeim tíma þegar Færeyingar voru nýbúnir að semja við Evrópusambandið og skildu Ísland eftir, þannig að þetta voru líflegar umræður. En helstu dagskrármálin engu að síður á fundinum sjálfum vörðuðu innflutning á selaafurðum, norðurslóðamálin að sjálfsögðu og sjávarútvegsmál. En samningurinn sem Færeyjar, Noregur og Evrópusambandið gerðu um makrílveiðar tók drjúgan skerf af þeim fundi.

Sú sem hér stendur gegndi formennsku eða var forseti Vestnorræna ráðsins árið 2014 fram að ársfundi í Vestmannaeyjum um haustið. En við höfum alltaf lagt áherslu á að því betur sem þjóðirnar þrjár standa saman þeim mun meiri árangri náum við. Og það er akkúrat lykillinn í þessu vestnorræna samstarfi, að til að ná að láta rödd landanna þriggja heyrast í hinum stóra heimi erum við sterkari saman.

Þegar Vestnorræna ráðið var stofnað var það í formi hins vestnorræna þingmannaráðs, en það var stofnað í Nuuk í september 1985. Því er ljóst að í ár er runnið upp afmælisár. Það er 30 ára afmæli í haust og starfsemi ársins, á því ári sem nú er hafið — svo að við kíkjum nú aðeins inn til framtíðarinnar — mun litast af því og það verður spennandi að fá að flytja ársskýrslu hér að ári þar sem verður fjallað um þá fjölmörgu atburði sem verða á árinu og sem ráðið mun ráðast í. Formaður ráðsins er Bill Justinussen, þingmaður frá Færeyjum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra, ég vonast til þess að skýrslunni verði vísað til utanríkismálanefndar.