144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Vestnorræna ráðið 2014.

478. mál
[22:46]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni og formanni Vestnorræna ráðsins að allra veðra er von hjá þessum þingmanni og það fer enginn á fjörur hans með rangindum í einu eða neinu máli. Ég er fulltrúi Íslendinga á þessu þingi og sit í utanríkismálanefnd og ég veit nákvæmlega hvað til míns friðar heyrir. Veit nákvæmlega sömuleiðis hvaða vald ríkisstjórnin hefur og hvaða vald hún hefur ekki. Það liggur algjörlega skýrt fyrir að það er ekki ríkisstjórn Íslands sem mótar stefnu um norðurslóðir, það er Alþingi Íslendinga og það veit hv. þingmaður.

Ég ítreka það sem ég hef sagt — þó að ég sé sammála því að gott sé að hafa samræmdar stefnur fyrir löndin þrjú þá verða þær meðal annars mótaðar af þjóðþingunum. Og hvorki formaður Vestnorræna ráðsins né þeir þingmenn sem þar sitja hafa nokkurt umboð til þess að framselja það til einhverra kontórista sem síðan ætla að senda þær tillögur til utanríkisráðuneytanna. Ef þær eiga eitthvað að fara þá eiga þær að koma til þjóðþinganna. Það er mín skoðun. Á þeirri skoðun ætla ég að standa og ég tel að hv. þingmaður hafi sem formaður Vestnorræna ráðsins farið, að minnsta kosti á þessu sviði, gróflega út fyrir það sem henni er heimilt. Ég er þeirrar skoðunar með tilliti til þess hvaða stöðu utanríkismálanefnd er skipað í þingsköpum Alþingis að skoða þurfi þetta mál sérstaklega. Fyrir mína parta, sem áhugamaður um þann málaflokk og hv. þingmaður veit að ég hef sinnt því töluvert vel, ætla ég hvorki að láta hana né einhverja aðra hrifsa það út af verksviði þingsins.

Ég hef, eins og hv. þingmaður veit, sinnt þessum málaflokki og lesið mér til um þau efni. Ég hugsa að, að frátöldum formanni Vestnorræna ráðsins, enginn hafi lesið jafn vel hina ágætu skýrslu Egils Þórs Níelssonar og ég, en það breytir ekki nokkru um að það er þingsins að ákveða um þennan málaflokk og ekki eru teknar einhverjar ákvarðanir um hann eins og að smella fingri (Forseti hringir.) sem í reynd fara í bága við lög sem hafa verið samþykkt hér, (Forseti hringir.) fyrir utan að gætu hugsanlega (Forseti hringir.) farið í bága við samþykkta þingsályktunartillögu í þessum sölum.