144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

Vestnorræna ráðið 2014.

478. mál
[22:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé kannski óþarfi að gera of mikið úr þeirri nefnd sem er að störfum. Hv. þingmaður vísaði til einhverra kontórista, ég átta mig ekki alveg á hvað þar er á ferðinni, vegna þess að í nefndinni eru einfaldlega þingmenn frá löndunum þremur. Það er auðvitað þannig að Vestnorræna ráðið er ekki deild undir íslenska þinginu. Þetta eru þrjú þjóðþing sem standa að Vestnorræna ráðinu. Við samþykktum á okkar ársfundi að fara í þessa vinnu varðandi skýrsluna og fylgja henni eftir með þeim hætti að reyna að vinna aðeins betur upp úr henni, á hvaða málasviðum þjóðirnar þrjár geta átt samleið.

Ég held að það sé mikil rangtúlkun að halda því fram að Vestnorræna ráðið sé með einhverjum hætti að reyna að hrifsa vald frá íslensku utanríkismálanefndinni. Ég fullyrði að það vakti ekki fyrir þingmönnum Íslands sem sátu þann ársfund eða þingmönnum Færeyja eða þingmönnum Grænlands sem sátu þann ársfund að vera með það hugarfar. Það er alveg ljóst að Vestnorræna ráðið starfar ekki í þeim anda, hefur aldrei gert og mun aldrei gera það.

Hins vegar er það okkar hlutverk að reyna að kortleggja hvar við getum átt samstarf. Við tökum það hlutverk alvarlega og við ákváðum það á ársfundi okkar í Narsarsuaq á Grænlandi árið 2013 að fara í þá vinnu. Við munum klára það verk.