144. löggjafarþing — 71. fundur,  26. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[22:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F):

Hæstv. forseti. Það líður að lokum þessarar ágætu umræðu um frumvarp um breytingu á raforkulögum. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór ágætlega yfir það hvaða efnisatriði það eru sem hafa aðallega verið í ágreiningi. En sú ánægjulega þróun hefur nú orðið, eins og kom fram í máli hennar, að samkomulag hefur náðst þvert á flokka um afgreiðslu þessa máls. Það er mjög gott vegna þess að málið er brýnt og mikilvægt og því er það mikils virði að þetta samkomulag skuli hafa náðst um afgreiðslu þess á þinginu. Það verður okkur vonandi góður vegvísir inn í þau störf sem við eigum eftir að vinna hér á næstu vikum. Ég vil sömuleiðis þakka henni kærlega fyrir samstarfið í þessu máli ásamt hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur og hv. þm. Birgittu Jónsdóttur.

Aðalatriðið er að málið fer nú til áframhaldandi vinnslu í nefndinni, í hv. atvinnuveganefnd, og síðan kemur það hér inn í þingið til 3. umr. og fær vonandi farsæl lok.