144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

störf í allsherjar- og menntamálanefnd.

[10:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir áhyggjur og athugasemdir hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Ég er varamaður í allsherjar- og menntamálanefnd, sat þar raunar í allan fyrravetur, hef miklar mætur á starfsumhverfi og málatilbúnaði öllum í þeirri nefnd og tel henni afar vel stjórnað. Ég verð því að segja að það olli mér miklum vonbrigðum að verða þess áskynja að ríkt hefur umsátursástand í nefndinni um nokkurra vikna skeið sem snýst um það að formaður nefndarinnar sætir færis að setja málið á dagskrá til að geta afgreitt það út. Burt séð frá afstöðu einstakra þingmanna til málsins sem slíks eru þetta ekki þau vinnubrögð sem við viljum sjá þróast í þinginu.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson benti mér á að 16 þingmannamál hefðu ekki fengið svo mikið sem eina gestakomu meðan þetta mál er sennilega methafi í umfjöllun þingmannamála, a.m.k. í vetur og örugglega þótt lengra sé horft. Ég tek því undir athugasemdir hv. þingmanns, ég tel þessi vinnubrögð mjög ámælisverð og að það sé töluvert verkefni að endurreisa samstarfsandann (Forseti hringir.) sem hefur ríkt í nefndinni.