144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

frumvörp um húsnæðismál.

[10:43]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda áfram að fjalla um heimilin, þó með nokkuð öðrum hætti. Húsnæðismál eru meðal stóru málanna sem brenna á fólki. Það hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sem hefur fylgst eitthvað með fjölmiðlum á síðustu mánuðum hve erfið staða er uppi á húsnæðismarkaði, ekki hvað síst hjá ungu fólki og fólki með lágar tekjur. Það er ekki ofsögum sagt, held ég, að beðið sé eftir boðaðri stefnu stjórnvalda í þessum efnum.

Í þingmálaskrá eru kynnt fjögur frumvörp frá hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem tengjast húsnæðismálum, tvö sem áttu að koma fram í haust og tvö sem áttu að koma fram núna í vor, en það bólar hins vegar ekkert á þeim enn.

Ég spyr því hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hver staðan sé á þessum frumvörpum, hvort ráðherra ætli að leggja einhver þessara frumvarpa fram á þessu þingi og þá hver þeirra.