144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

endurskoðun laga um fjárhagsaðstoð og greiðsluaðlögun.

[10:57]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í orðum hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur var lagt til að þessi löggjöf yrði endurskoðuð. Við höfum bæði verið að huga að endurskoðun á þessari löggjöf og greiðsluaðlögunarlöggjöfinni í heild sinni. Ég tel fulla ástæðu til þess að fara í endurskoðun á báðum þessum lögum, ekki hvað síst vegna þeirra breytinga sem þingið ákvað að gera á þeim frumvörpum þegar þau voru lögð fram þar sem skilyrðin til þess að geta farið í gegnum greiðsluaðlögun og fengið fjárhagsaðstoðina voru hert.

Það hefur gert að verkum að við sjáum, í þeirri könnun sem umboðsmaður skuldara hefur gert hjá þeim sem leitað hafa til stofnunarinnar, að þeir sem hafa fengið úrræðin sem hafa verið í boði, hafa sem sagt uppfyllt skilyrðin, virðast vera eins sáttir og fólk getur orðið við þær erfiðu aðstæður sem þvinga fólk til að leita eftir slíkri aðstoð. Þeim sem hefur verið neitað, bæði um fjárhagsaðstoðina, eins og hér er verið að nefna, og um greiðsluaðlögunina — það fólk er að sjálfsögðu mjög ósátt og á enn við fjárhagsvanda að stríða.

Ég held því að það sé mjög brýnt að fara í þetta. Ég hef verið með starfsmenn í Noregi þar sem við höfum verið að skoða reynslu þeirra. Þeir voru að vissum hluta ákveðin fyrirmynd þegar þessi löggjöf var sett. Við erum líka að fara yfir þær fjölmörgu athugasemdir sem hafa borist úrskurðarnefnd um greiðsluaðlögun og líka í starfi hjá umboðsmanni skuldara. Það var alla vega alltaf minn vilji að horfa frekar á það að reyna að hjálpa því fólki sem lenti í mjög miklum vanda í tengslum við hrunið, klára þeirra mál og jafnvel skoða hvort rétt væri að fella þessi ákvæði niður að einhverju leyti. Því miður hefur það ekki gengið eftir.