144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

arður sjávarútvegsfyrirtækja og veiðigjöld.

[11:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina sem bendir á þá gleðilegu staðreynd að fyrirtækjum í þessu landi gengur sem betur fer vel. Þau eru undirstaða þess að hér verði áfram velmegun, nýsköpun og aukin framlegð. Ég bendi á að þetta tiltekna fyrirtæki, eins og hv. fyrirspyrjandi minntist reyndar á, er eitt af okkar öflugustu sjávarútvegsfyrirtækjum og er í gríðarlegum fjárfestingum. Ætli eitt skip sé ekki fjárfestingarkostnaður upp á eina 4 milljarða fyrir utan þá fjárfestingu sem er víða í landi. Ég tók eftir því að hv. þingmaður minntist ekkert á þau laun sem fyrirtækið greiðir á hverju ári, hvað þá skatta. Mig minnir að á síðasta ári hafi sjávarútvegurinn í heild sinni greitt í opinber gjöld tæpa 30 milljarða. Það er áhugavert að bera það saman við aðrar atvinnugreinar. Hvað væru fjármálafyrirtækin að greiða í opinber gjöld ef núverandi ríkisstjórn hefði ekki sett á hinn sérstaka bankaskatt? Það væri áhugavert að sjá það í ljósi hagnaðartalna í þeim geira.

Við eigum auðvitað að gleðjast yfir því að það gangi vel. Um leið eigum við að muna að það eru 620 sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Ég hef hitt mörg þeirra sem hafa sagt: Hefðu menn haldið áfram á þeirri braut sem hv. fyrirspyrjandi var á þegar hann var í ríkisstjórn og stýrði því að hér yrðu lögð á ofurhá veiðigjöld hefðum við öll farið á hausinn. Þá hefðum við setið uppi með fimm Grandafyrirtæki í landinu. Það er ekki minn vilji að svo sé. Ég vil að þessi 620 fyrirtæki geti blómstrað á Íslandi og eigi öll tækifæri. Það þýðir vissulega að sum fyrirtækin skila miklum hagnaði þar sem hagræðing hefur orðið mikil í greininni. Þau fyrirtæki eru þá öflugust í nýsköpun, í framkvæmdum og í fjárfestingum sem munu efla tekjur samfélagsins gríðarlega í framtíðinni.

Svo vil ég minna á að ef ég man rétt er HB Grandi almenningshlutafélag og ég býst við að arðurinn (Forseti hringir.) sem fer út, án þess að ég hafi reiknað hann, sé ekki meiri (Forseti hringir.) en svo að ef þessir aðilar hefðu lagt fjármuni sína í eitthvað annað en sjávarútveg (Forseti hringir.) þyrftu þeir líka fá einhverja vexti á þá þar.