144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

arður sjávarútvegsfyrirtækja og veiðigjöld.

[11:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það er að minnsta kosti ljóst að einn af eigendum HB Granda þarf ekki að hafa áhyggjur af því þó að afkoman verði eitthvað misjöfn í hvalveiðum næstu árin. Mér sýnist að arðurinn frá HB Granda þangað dugi til þess að standa straum af þeim um áratugi jafnvel þó að uppskeran verði lítil.

Ég var að tala um hvað greiðslugeta stóru fyrirtækjanna er augljóslega mikil í þessum efnum. Það er gott að þeim gangi vel, já, en við erum að ræða hér um spurninguna um hvert sé sanngjarnt endurgjald þessara fyrirtækja fyrir aðganginn að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Til þess höfum við tæki. Það er ekkert vandamál að útfæra veiðigjöldin þannig að það sé tekin hliðsjón af blandaðri afkomu fyrirtækjanna, að þau stóru greiði meira en þau minni o.s.frv. Það er fyrirsláttur að meðaltalið verði að vera þannig að sum fyrirtækjanna séu með þennan óhemjulega hagnað sem ættu sannarlega að greiða meira fyrir aðgang sinn að þessari auðlind. Það er sanngjarnt og rétt. HB Grandi er með mestu veiðiheimildir allra fyrirtækja á Íslandi og er stærsta fyrirtækið í þeim skilningi. Það hefur mestan aðgang allra fyrirtækja í landinu að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Við sjáum á þessum tölum að fyrirtækið gæti auðveldlega og ætti að skila meiru fyrir afnot sín af auðlindinni. (Forseti hringir.) Það er verið að færa auðlindarentu frá þjóðinni til eigenda HB Granda og það var aukið um 700 (Forseti hringir.) millj. kr. á síðasta ári sem er nákvæmlega sama tala (Forseti hringir.) og veiðigjöldin lækkuðu um.