144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja þessa mikilvægu umræðu. Líkt og hann minntist á er aldurspíramídi þjóðarinnar að breytast og öldruðum á eftir að fjölga á komandi árum. Það er nú þegar vandi til staðar því að það er skortur á hjúkrunarrýmum og hann mun bara aukast. Ég tel einsýnt að við þurfum að verja auknu fjármagni til að fjölga hjúkrunarrýmum. Eins og staðan er núna, þar sem skortur er á rýmum, er það okkur þjóðhagslega mjög dýrt vegna þess að vöntunin á hjúkrunarrýmum veldur uppsöfnun og teppir pláss á legudeildum á spítölum þar sem kostnaður er margfaldur á sólarhring miðað við það sem væri á hjúkrunarheimili.

Ég hef áhyggjur, líkt og málshefjandi þessarar umræðu, af því að þegar þjónusta sé boðin út sé reynt að spara eins og kostur er og að það komi niður á gæðum þjónustu og þjálfun starfsfólks. Það er nokkuð sem ég held að við þurfum að taka fyrir eða sem sagt að tryggja að verði ekki.

Að lokum langar mig að benda á að einnig skortir hjúkrunarrými fyrir yngra fólk, fólk í kringum sextugt. Líkt og mátti lesa um í Fréttatímanum í morgun er því miður of mikið um það að yngra fólk þurfi að vera á deildum með fólki sem er kannski á tíræðisaldri og á mjög lítið sameiginlegt (Forseti hringir.) í aldri. Við þurfum líka að hugsa um hjúkrunarrými fyrir þennan hóp.