144. löggjafarþing — 72. fundur,  27. feb. 2015.

hjúkrunarheimili og þjónusta við aldraða.

[11:23]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa brýnu umræðu. Mig langar að nýta tímann og vitna í skýrslu sem Ríkisendurskoðun gaf út í byrjun nóvember á síðasta ári og heitir Rekstrarafkoma og fjárhagsstaða hjúkrunarheimila á árinu 2013. Þetta er viðamikil og góð skýrsla og hlýtur að vera að einhverju leyti grunnurinn að þeirri umræðu sem fer fram um rekstur hjúkrunarheimila og þessi mál í heild sinni. Það kemur meðal annars fram að á árinu 2013 kostaði rekstur hjúkrunarheimila 23 milljarða. Það hafa víða verið rekstrarvandræði og ríkið hefur oft hlaupið undir bagga. Það er nefnt í skýrslunni að það sé ekki endilega alltaf rétta leiðin að þegar hjúkrunarheimili séu komin með halla komi ríkið og bæti við. Staðan árið 2013 var þannig að heimili með jákvæða afkomu voru 13 en afkoma 32 heimila var neikvæð. Það er ekki nógu gott.

Það eru ýmsir mjög góðir punktar í skýrslunni, t.d. er bent á að velferðarráðuneytið þurfi í samvinnu við embætti landlæknis að ráðast í frekari greiningu á hjúkrunarþörf þeirra sem fá inni á heimilunum og tryggja að samræmdu verklagi sé fylgt. Þannig á að koma í veg fyrir að einstaklingar sem geta notað einfaldari og ódýrari úrræði séu lagðir inn á hjúkrunarheimili. Það er heldur alls ekki gott ef við erum með mismunandi aðstæður á heimilum, það sé bara svona hipsumhaps hvernig þjónustan er eftir því í hvaða sveitarfélagi viðkomandi býr. Síðan þarf að bæta eftirfylgni með því að skilgreina lágmarksþjónustu á þessum heimilum. Stjórnvöldum er einnig bent á að þau hafi ekki kostnaðargreint þessa lágmarksþjónustu.

Við höfum aðeins skoðað þessa skýrslu í fjárlaganefnd. Ef hún hefur ekki þegar komið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á hún eftir að gera það en ég geri ráð fyrir að hún hafi líka verið rædd í velferðarnefnd. (Forseti hringir.) Ef svo er ekki mæli ég með því (Forseti hringir.) að velferðarnefnd taki þessa skýrslu til vandlegrar skoðunar.